JÚNÍ: MÍNAR UPPÁHALDS VÖRUR ( SKINCARE)

Ég ákvað að skipta upp þessum blöggum svo þau væru ekki allt of löng og taka fyrir húðvörur sér og aðrar snyrtivörur sér. Svo þessi færsla er aðeins um mínar uppáhalds húðvörur í júní.

DIOR CAPTURE TOTALE SUPER POTENT RICH CREME

Þetta krem mun alltaf fá fullt húsa meðmæli frá mér en þetta er mitt allra allra uppáhalds rakakrem. Þið vitið sem hafa prufað!
En ég hef verið að stelast aðeins aftur í kremið undanfarið, ég ætlaði mér að fara í það að klára aðrar vörur sem ég ætla mér ekki að kaupa aftur en einhvern veginn var ég farin að nota þetta krem á kvöldin, kvöld eftir kvöld. Formúlan er mjög þykk en hún hefur a.m.k ekki komið til með að stífla húðina mína, það er líka þannig búið að það dregur sig ansi hratt inn í húðina og býr ekki til filmu sem situr á yfirborðinu. Kremið er afar virkt á öldrunareinkennum í húðinni og gefur mikinn raka og mikla mýkt.

CLARINS EXTRA FIRMING ENERGY

Ég fékk þetta krem að gjöf þegar það kom í búðir en þið sem þekkið mig vitið að ég er mjög hrifin af Clarins húðvörunum og var því mjög spennt að prófa kremið. Ég verð þó að segja að kremið kom mér verulega mikið á óvart ! Það er létt á húðinni, býr til fallega áferð og ég hef notað það á morgnana þar sem það býr til mikinn ljóma á húðinni, en það er svo fallegt undir farða.
Kremið hefur einnig birtandi áhrif á húðina með tímanum en ég tímdi varla að skipta um krem eftir margra vikna notkun svo ég hélt notkuninni áfram og hef nánast klárað það upp til agna, held ég geti ekki gefið betri meðmæli en það !

LA MER THE EYE CONCENTRATION

Ég á mér nokkur augnkrem sem eru mér ómissandi og þetta er orðið eitt af þeim. Ég hef notað þetta krem nánast öll kvöld síðan ég fékk það fyrst. Ásetjarinn fylgir með en það er sérstök stál kúla sem hjálpar formúlunni að draga sig betur inn í húðina og draga úr þrota. Kremið birtir verulega til undir augnsvæðinu, dregur úr bláma og vinnur vel á öldrunareinkennum. Einnig er það mjög rakagefandi en það er það sama hér og með Clarins kremið að ég hef varla tímt að skipta um augnkrem til að prófa önnur en þetta er mér ómissandi á kvöldin.

MÁDARA PLANT STEM CELL AGE DEFYING SUNSCREEN

Ég elska að prófa nýjar sólarvarnir en ég fékk þessa sólarvörn í lok maí og næstum notað hana eingöngu út allan júní. Vörnin er dásamleg, ein og sér og undir farða. Til eru varnir sem eru bæði litlaus og með fallegum lit.
Sólarvörnin er breiðvirk en það þýðir að hún verndar húðina gegn bæði UVA og UVB geislum. Hún hefur mengunarvörn og verndar húðina einnig fyrir rakaskorti, litabreytingum, skort á teygjanleika ásamt öðrum einkennum sem geta gert vart við sig frá sólargeislum.